- Þjónusta
- Vörur
- Vinnustaðurinn
- Um okkur
- Vottanir
Terra hefur hafið innleiðingu á nýju úrgangshirðukerfi á Akureyri, sem kemur í stað eldra kerfis. Nýja kerfið krefst þess að íbúar flokki úrgang í fjögur sérílát, þ.e. matarleifar, blandaðan úrgang, pappír og plastumbúðir. Samkvæmt nýjum lögum um meðhöndlun úrgangs er óheimilt að blanda þessum úrgangsflokkum saman.
Auk flokkunaríláta við heimili verða á grenndarstöðvum ílát fyrir gler, málm, textíl og auk þeirra úrgangsflokka sem eru nú þegar til staðar, þ.e. bylgjupappa, sléttan pappa, dagblöð og plastumbúðir.
Innleiðingin hefst nyrst í bænum og færist suður. Fyrst verður lögð áhersla á sérbýli og minni fjölbýli, eitt hverfi í einu. Stærri fjölbýli bíða haustsins þar sem annars konar ílát eru í boði og eru þau ekki komin til landsins.
Dreifingu í Síðu- og Giljahverfi er að mestu lokið og unnið er í Hlíðahverfi þessa dagana. Holtin, Efri og Neðri Brekka fylgja í kjölfarið, síðan Eyrin, Innbær og Nausta- og Hagahverfi.
Markmið þessara breytinga er að bæta flokkun, stuðla að endurvinnslu og endur nýtingu úrgangs, og minnka förgun úrgangs eins og frekast er kostur til að styðja við hringrásarhagkerfið. Endurvinnslutunnan sem margir þekkja mun hverfa þar sem blöndun endurvinnsluefna í eina tunnu er nú óheimil samkvæmt nýjum lögum. Þessar tunnur verða fjarlægðar á næstu dögum og innheimtu fyrir þessa þjónustu hefur verið hætt frá og með maí.
Íbúar eru hvattir til að nýta grenndarstöðvar og gámastæði á meðan nýju ílátin berast. Akureyrarbær leggur heimilum til þau ílát sem þarf í nýju kerfi og mælst er til þess að ílát séu samnýtt eins og hægt er. Nokkrar stærðir íláta eru í boði og úrgangshirðugjöld munu að einhverju leyti tengjast vali íbúa á ílátum.
Fyrir sérbýli verða þrjár tunnur: tvískipt tunna fyrir matarleifar og blandaðan úrgang, tunna fyrir plastumbúðir og önnur fyrir pappír. Mögulegt er að fá tvískiptar tunnur fyrir plast og pappír þannig að tvær tunnur séu við sérbýli.
Losunartíðni verður á 14 daga fresti fyrir matarleifar og blandaðan úrgang en á 28 daga fresti fyrir pappír og plast. Tvískipt hefðbundin 240 lítra tunna fyrir pappír og plast er oftast ekki nægjanleg fyrir meira en 2-3 manna heimili. Mögulega getur þurft að vera með fleiri ílát í stað þeirra tvískiptu. Íbúar ættu ekki að fylla tunnur of mikið til að forðast erfiðleika við losun. Óviðeigandi meðhöndlun, svo sem að hrista tunnur til að losa innihald, eykur hættu á skemmdum á ílátum og dreifingu úrgangs. Ef ílát er orðið fullt hvetjum við ykkur til að nýta grenndarstöðvar.
Óskir íbúa um breytingar ættu að berast Akureyrarbæ í gegnum netfangið flokkumfleira@akureyri.is og finna má upplýsingar um nýja kerfið á vefnum
Áskoranir fylgja innleiðingunni þar sem þjóna þarf bæði gamla og nýja kerfinu á meðan á þessum breytingum stendur. Nýja kerfið tekur lengri tíma þar sem aðeins er hægt að losa eina tvískipta tunnu í hvert sinn, ólíkt eldra kerfinu sem gerði kleift að losa fleiri tunnur og hólf í einu. Þess vegna verður úrgangshirðudagatal ekki gefið út fyrr en komin er reynsla á nýja kerfinu.
Fjölga þarf bílum og starfsfólki eftir því sem innleiðingin heldur áfram. Terra leggur sig fram við að valda íbúum sem minnstum óþægindum og að kerfið verði komið í fastar skorður í haust. Þá fyrst verður úrgangshirðudagatal birt. Þar til þá mun eldri áætlun halda gildi með einhverjum tilfæringum.
Terra vill nýta tækifærið og þakka íbúum fyrir þolinmæði þeirra á þessum umbreytingartíma.
Móttökustöðin Berghellu 1 er opin
mán - fös: 8:00-17:00
Efnaeyðing er opin alla virka daga: 8:00-16:00
Vörulager er opin alla virka daga: 8:00-16:00
Móttökustöðin Hlíðarvöllum Akureyri er opin
mán-fös: 8:00-17:00
Þjónustuver er opið alla virka daga: 9:00-15:00
Netspjallið er opið alla virka daga: 9:00-16:00