Tilgangur og umfang
Stefnan tekur til allra sem starfa fyrir Terra og er sett til þess að marka skýra stefnu í vinnuverndar og öryggismálum og sem leiðarljós í daglegum rekstri. Starfsfólk, undirverktakar, aðrir þjónustuaðilar skulu virða hana í öllum störfum sínum fyrir félagið. Stefnan tekur mið af sjálfbærnistefnu félagsins ásamt því að uppfylla kröfur í lögum, reglum og reglugerðum.
Stefna
Komum heil heim Terra leggur ríka áherslu á bæði líkamlega og andlega heilsu starfsfólks. Félagið vinnur að því að byggja upp virka öryggis- og heilsuvitund til að lágmarka líkur á slysum, tjónum og fjarvistum vegna veikinda.
Unnið er að stöðugum umbótum með reglulegu eftirliti með vinnuverndar- og öryggismálum með því að skrá atvik og ófullnægjandi aðstæður, greina orsakir og framkvæma umbætur.
Starfsfólkið vinnur saman sem ein heild og styður við hvort annað. Við viljum öll koma heil heim og minnum hvort annað á mikilvægi þess að fylgja öryggisreglum félagsins.
Vinnustaðurinn
Terra gerir kröfu til þeirra sem sinna stjórnunar- og leiðtogahlutverki um að sýna gott fordæmi þegar kemur að heilsu-, öryggis- og vinnuverndarmálum og hvetji starfsfólk sitt til að huga vel að þessum atriðum. Ábyrgðin er skýr og starfsfólk veit og finnur að heilsa þeirra og öryggi hefur ávallt forgang.
Með upplýsingagjöf, reglulegu samtali, þjálfun og fræðslu eflir Terra heilsu-, vinnuverndar- og öryggisvitund hjá starfsfólki til að skapa það vinnuumhverfi sem félagið vill vera stolt af.
Aðbúnaður starfsfólks miðar að því að viðhalda góðri heilsu, vellíðan og að fyllsta öryggis sé gætt.
Fólkið
Einelti, kynferðisleg eða kynbundin áreitni og ofbeldi, er undir engum kringumstæðum umborin. Terra fylgir viðbragðsáætlun gegn einelti og annarri áreitni sem er aðgengileg öllu starfsfólki.
Áhætta er metin í allri starfseminni og áhættur í hverju verki eru ávallt undir stjórn. Hvert starf er áhættumetið með starfsfólki sem vinnur starfið. Ekkert verk er svo mikilvægt að hætta megi öryggi fólks eða búnaðar. Það er alltaf leitað að öruggari leið.
Öll sem starfa fyrir Terra eru ábyrg fyrir eigin heilsu og öryggi, tala fyrir auknu öryggi og hei
Ábyrgð
Stjórnendur skulu sýna gott fordæmi og bera ábyrgð á að skapa aðstæður og vinnuumhverfi til að hrinda stefnu þessari í framkvæmd. Allt starfsfólk skal kynna sér efni stefnunnar og framfylgja henni. Forstjóri ber heildarábyrgð á stefnunni og framkvæmdastjórn í heild skal tryggja eftirfylgni stefnunnar ásamt gæða-, umhverfis- og öryggisstjóra og mannauðsstjóra.