Styrktarstefna Terra
Terra vill láta gott af sér leiða og tekur virkan þátt í því samfélagi sem fyrirtækið starfar í og hluti af þeirri þátttöku felst í styrkjum til margvíslegra málefna.
Stefna þessi endurspeglar markmið okkar í sjálfbærni og tekur mið af þeim Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem við höfum sett í forgrunn. Við viljum styrkja málefni sem gagnast nærsamfélaginu með sérstaka áherslu á umhverfismál, nýsköpun og heilbrigðan lífstíl.
Umhverfismál – Betri umgengni um jörðina
Við viljum hvetja Íslendinga til dáða og auðvelda þeim að koma efnum í réttan farveg og að mestu leyti aftur í hringrásina á umhverfisvænan hátt. Hringrásarhugsun og aukið gagnsæi í allri okkar virðiskeðju skipta okkur miklu máli. Við viljum draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi okkar á umhverfið, hvort sem þau tengjast losun gróðurhúsalofttegunda, mengun frá starfsstöðvum eða áhrifum á líffræðilegan fjölbreytileika. Við leggjum líka áherslu á að starfsemi okkar sé til fyrirmyndar þegar kemur að úrgangsmyndun og flokkunarhlutfalli.
Nýsköpun – Sköpum nýjar leiðir í átt að hringrásarhugsun
Við viljum hafa jákvæð áhrif á samfélagið, meðal annars með því að styðja við nýsköpun í átt að sjálfbærni. Við trúum á nýsköpun sem mikilvæga leið til að gera efnisstraumana hreinni og auka endurnotkun/endurnýtingu efna í átt að hringrásarhugsun.
Heilbrigður lífstíll – Stuðlum að heilbrigði
Mikilvægur hluti af sjálfbærni er heilsa og vellíðan okkar í samfélaginu í dag og til framtíðar litið. Við viljum styðja við verkefni sem stuðla að heilbrigðum lífstíl í víðu samhengi og horfum til andlegrar og líkamlegrar heilsu, heilsueflandi forvarna, íþrótta og æskulýðs- og félagsstarf barna og ungmenna. Við leggjum sérstaka áherslu á að styrkja við æskulýðstengd verkefni barna og ungmenna enda eru þau framtíðin. Þá tökum við ákvarðanir með fjölbreytni og jafnrétti kynjanna í huga við úthlutun styrkja.
Auk þess styrkir félagið einstök góðgerðarmál, m.a. er átt við mannúðar, góðgerðar- og hjálparstarf.
Við úthlutun styrkja er litið til sjálfbærnisstefnu félagsins og tekið tillit til þess hvort umbeðinn styrkur nær til nærumhverfis starfstöðva eða starfsemi félagsins en við störfum vítt og breitt um landið.
Við styrkjum ekki trúfélög, stjórnmálaflokka eða hvers konar verkefni sem fara gegn siðareglum félagsins.
Til að sækja um styrk þarf að fylla út styrkbeiðni félagsins og lýsa þar vandlega þeim verkefnum eða málefnum sem sótt er um styrk fyrir ásamt rökstuðningi með hvaða hætti beiðnin tengist stefnu þessari.
Við svörum öllum umsóknum sem okkur berast og leggjum okkur fram við að afgreiða erindin faglega og í takt við stefnu þessa.
Gera má ráð fyrir að afgreiðsla styrkumsókna taki allt að tvær vikur.