Anna Jóna Kjartansdóttir gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri hjá Terra, hélt á dögunum erindi á Forvarnarráðstefnu á vegum VÍS, sem að þessu sinni bar yfirskriftina Vinna með öryggi alla daga. Þar fór hún yfir mikilvægi þess að taka vel á móti nýju fólki á vinnustaðnum strax á fyrstu dögum, meðal annars með fræðslu.

Þegar kemur að öryggismálum segir Anna Jóna að það sé á ábyrgð stjórnenda, með aðstoð öryggissérfræðinga, hvort sem það er innanhúss eða í gegnum aðkeypta þjónustu, að setja upp áhættumat og annast fræðslu. Stjórnendur þurfi sjálfir að taka á móti sínu fólki og leggja línurnar frá upphafi.

„Stjórnendur verða sjálfir að taka á móti nýju fólki og leggja línurnar frá fyrsta degi, með aðstoð öryggissérfræðinga, hvort sem það er innanhúss eða í gegnum aðkeypta þjónustu“.

Hún telur að einn mikilvægasti þátturinn í árangursríkri fræðslu sé að tryggja að efnið sé sett fram á því tungumáli sem starfsfólk skilur. Góð samskipti og skýrleiki séu lykilatriði til að tryggja að allir fái sömu grunnþekkingu í öryggismálum, óháð uppruna.

Fræðslan hefur þróast frá útprentuðum glærum í plastvösum yfir í sveigjanlegar, rafrænar lausnir, líkt og þær sem notaðar eru hjá Terra. Terra skólinn gerir fólki kleift að sækja fræðslu hvar og hvenær sem því hentar.

„Þegar allir hafa sama grunn, þá er auðveldara að dýpka skilninginn í gegnum fundi og persónuleg samskipti“.

Hún minnir einnig á að öryggi sé sameiginlegt verkefni:

„Við berum öll ábyrgð á að komast heil heim og verðum að vera meðvituð um að fólk er á ólíkum stað í öryggisvitund. Það er mikilvægt að við hjálpum hvert öðru að verða betri í þessu.“

Að lokum segir hún að eitt meginmarkmiðið sé að skapa vinnumenningu þar sem starfsfólk þorir að stoppa þegar eitthvað virðist ekki í lagi og viti að það sé ekki aðeins leyfilegt, heldur nauðsynlegt.