Terra aðili að UN Global Compact

Terra hefur gerst aðili að UN Global Compact sem eru samtök Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins um ábyrga starfshætti þar sem fyrirtæki og stofnanir eru hvött til góðra verka í þágu samfélagsins með sjálfbærni að leiðarljósi.

Global Compact er ákall til fyrirtækja um að aðlaga rekstur og starfsemi sína þannig að hún byggi á tíu meginmarkmiðum sáttmálans á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála, umhverfismála og vörnum gegn spillingu. Terra ber að skila árlega upplýsingum um árangur sinn í sjálfbærni í gegnum opinberan gagngrunn UN Global Compact og stuðla þannig að auknu gagnsæi og samanburðarhæfni í upplýsingagjöf.

„Með þátttöku sinni hefur Terra skuldbundið sig til að innleiða þessi tíu meginmarkmið sáttmálans í starfsemi sína og sjáum við fram á að fá mikinn stuðning og fræðslu í gegnum öflugt tengslanet og fræðsluefni frá UN Global Compact. Innleiðing sjálfbærni í rekstri er vegferð og er aðild Terra að UN Global Compact eitt af mörgum skrefum sem við vildum taka á sjálfbærnivegferð okkar. Miklar breytingar eru þessi misserin í regluverki varðandi sjálfbærni og frábært að geta leitað í góðan stuðning og speglað við aðra í sömu sporum,” segir Gróa Björg Baldvinsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfbærni og menningar hjá Terra.

„Það er einstaklega ánægjulegt að bjóða Terra velkomið í hóp fyrirtækja í UN Global Compact. Terra hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að skilja ekkert eftir (e. Zero Waste) þegar kemur að endurvinnslu og meðhöndlun úrgangs og hefur lagt áherslu á að flokkun sé einföld og sjálfsögð fyrir neytendur. Þetta er stórt verkefni en er einn mikilvægasti hlekkurinn í að ná fram jákvæðum breytingum og árangri þegar kemur að sjálfbærni og að hringrásarhagkerfið nái fullri fótfestu á Íslandi. Við erum afskaplega stolt af því að vera hluti af sjálfbærnivegferð fyrirtækisins og hlökkum til samstarfsins,” segir Auður Hrefna Guðmundsdóttir svæðisstjóri UN Global Compact á Íslandi.

Hlutverk Global Compact er að veita fyrirtækjum aðgang að þjálfun og fræðslu, tala fyrir aðgerðum og miðla upplýsingum um það sem þátttakendur eru að gera. Um 21 þúsund fyrirtæki eru aðilar að UN Global Compact á heimsvísu og fer starfsemi samtakanna fram í 162 löndum.