Grænir skátar og Terra hafa náð samkomulagi um að Grænir skátar taki yfir þjónustu Terra er tengist söfnun drykkjarvöruumbúða með skilagjaldi. Grænir skátar hafa sinnt þessari þjónustu í yfir 30 ár og eru því sérfræðingar á þessu sviði. Mikil aukning hefur verið undafarið á þjónustu tengdri fyrirtækjum og húsfélögum hjá Grænum skátum en þá koma Grænir skátar með ílát fyrir umbúðirnar og sækja eftir þörfum. Viðskiptavinurinn fær síðan hluta af skilagjaldinu til sín. Grænir skátar eru afar ánægðir með þessa ákvörðun Terra og er þetta góð viðbót í stöðugt vaxandi hóp viðskiptavina.
 
Grænir skátar eru í eigu skátahreyfingarinnar á Íslandi og rennur allur hagnaður fyrirtækisins til æskulýðsstarfs. Hjá fyrirtækinu starfa 30 fatlaðir einstaklingar í gegnum átak Vinnumálastofnunnar „Atvinna með stuðningi“ þetta gerir Græna skáta að stærsta einstaka vinnustaðnum á landinu er tengist átakinu.
Þjónusta Grænna skáta er fjölbreytt en auk fyrirtækja- og húsfélagþjónustu þá rekur fyrirtækið móttökustöð í Hraunbæ fyrir Endurvinnsluna og heldur úti söfnunargámum fyrir dósir og flöskur á öllum grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og hjá sveitarfélögum fyrir austan fjall.
Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Grænna skáta segir að vöxtur fyrirtækisinns hafi verið ævintýralegur undafarið og samkomulagið við Terra ýti undir enn frekari vöxt og fleiri atvinnutækifæri fyrir fatlaða.

Hannes Örn Ólafsson þjónustustjóri segir það vera afar ánægjulegt fyrir Terra að geta fært Grænum skátum þennan hluta þjónustunnar enda séu Grænir skátar leiðandi á þessu sviði og hafi sýnt það og sannað. Einnig sé ánægjulegt ef þetta geti orðið til að auka þátttöku fatlaðra á atvinnumarkaðnum og styðja við æskulýðsstarf í landinu.

Kristinn og Hannes staðfesta samkomulagið á myndinni milli Terra og Grænna skáta..