Við ætlum að skyggnast bakvið tjöldin hjá viðskiptavinum okkar á árinu og við fengum að heyra sögu Blikksmiðju Guðmundar á Akranesi, sem hefur lagt mikla áherslu á að flokka sinn úrgang og sýna framúrskarandi tölur. Markmiðið með þessum sögum er að kynnast fyrirtækjum sem eru að gera góða hluti og miðla þeirra fróðleik. Þannig deilum við þekkingu. Við fengum Emil Kristmann, framkvæmdastjóra, til að svara nokkrum spurningum um þeirra vegferð.

„Markiðið okkar er í raun að henda engu sem má endurvinna og fá alla til þess að taka þátt. Við höfum alla tíð flokkað málma sem falla til í framleiðslunni okkar en það er gífurlegt magn af alskyns málm tegundum sem ekki er hægt að full nýta hjá okkur. Við vinnum með járn, kopar, ál og ryðfrítt stál. Það var hinsvegar í janúar 2020 sem við tókum næsta skref í flokkun úrgangs með því að flokka pappa og plast frá blandaða sorpinu. Ástæðan fyrir því að við tókum þetta skref var meðal annars sú að flokkun á heimilissorpi var komin á fullt hér í bæjarfélaginu og okkur fannst það mjög einfalt. Svo fórum við að greina hvað það var sem fór í stóra ílátið okkar með blandaða sorpinu og sáum að þetta var að miklu leyti umbúðir utan af aðkeyptu efni og smávöru.“

En hvernig ætli það hafi verið að sannfæra alla starfsmenn um mikilvægi flokkunar og fá þá til þess að breyta sínum venjum?

„Þetta var auðvitað nýtt fyrir öllum að byrja að flokka úrgang frá starfseminni okkar en það voru allir samtaka í þessu alveg frá upphafi. Þeir sem voru með mestu efasemdirnar fengu þá smá sjónræna hjálp. Þegar við vorum búin að fylla heilan poka af plastumbúðum var viðkomandi spurður að því hvað hann væri tilbúinn að urða marga svona poka ef það þyrfti að gerast í garðinum heima hjá honum. Þá breyttist viðhorfið fljótt og allir orðnir samtaka.“

Emil telur mjög mikilvægt, að hægt sé að mæla allt sem viðkemur átakinu. „Við búum svo vel að geta fylgst með hversu mikið magn hefur verið sótt til okkar í gegnum tíðina og var notast við tölur ársins 2019 til samanburðar. Það sást strax á ílátinu okkar úti að blandaður úrgangur var á undanhaldi hjá okkur eftir breytingarnar. Ílátið var oftast hálf tómt og öll endurvinnsluílát yfirfull. Svo komu tölur af vigtinni og við birtum þær inni á kaffistofu okkar fyrir allra augum. Þá sást strax að blandaður úrgangur hafði lækkað um 50% og hefur haldist þannig í tvö ár.“

Aðspurður um ráð fyrir önnur fyrirtæki þá bendir hann á að fyrsta skref fyrirtækja sem ekki flokka sé að sjálfsögðu að fá sér ílát undir endurvinnanlegt efni strax og fylgjast með því fyllast, því þá sést svo vel hvers vegna við erum að þessu. „Það er ekki spurning hvort, heldur hvenær hið opinbera fer að handstýra öllum lögaðilum í áttina að flokkun úrgangs. Hvernig sem það verður gert, þá myndi ég halda að það væri gott að vera undirbúin. Svo er það ákveðið sjónarmið, að það á ekki að bitna á umhverfi okkar allra við við séum í rekstri. Ég trúi því og vona að í framtíðinni verði hluti af rekstarleyfi lögaðila að flokkunarmál séu í lagi og afrakstur mældur.“

 


Við þökkum Emil fyrir að deila með okkur þeirra sögu, óskum honum og starfsmönnum öllum áframhaldandi góðs gengis og frábæru samstarfi.