Berglind afhendir Kolbrúnu startpakka fyrir
Berglind afhendir Kolbrúnu startpakka fyrir "lífrænt að heiman" verkefnið fyrir starfsmenn.

Við ætlum að skyggnast bakvið tjöldin hjá viðskiptavinum okkar á árinu og byrjum hjá Ferðaþjónustu bænda hf, sem hefur um langa hríð flokkað úrgang og sýna frábærar tölur. Markmiðið með þessum sögum er að kynnast fyrirtækjum sem eru að gera góða hluti og miðla þeirra fróðleik. Þannig deilum við þekkingu. Við fengum Berglindi, gæðastjóra, til að svara nokkrum spurningum um þeirra vegferð.

Umhverfisstefna Ferðaþjónustu bænda leit fyrst dagsins ljós í mars 2002 og á sama tíma setti Félag ferðaþjónustubænda upp sína stefnu þar sem félagsmenn voru hvattir til virkrar þátttöku á sviði umhverfismála. Frá upphafi hefur ferðaskrifstofan viljað sýna gott fordæmi og hefur hvatt bæði starfsfólk og félaga til að stunda ábyrga ferðaþjónustu með sjálfbæra ferðaþjónustu að leiðarljósi.

„Eitt af viðfangsefnum okkar frá upphafi er að draga úr mengun með minni verðmætasóun, t.d. með endurnýtingu og endurvinnslu. Sævar Skaptason framkvæmdastjóri er umhverfisþenkjandi að eðlisfari og var því í upphafi pappír, dósir og flöskur flokkaðar sérstaklega og bættust glerkrukkurnar fljótlega við“

Í mörg ár hafa þau á skrifstofunni verið að flokka, pappír, pappa, fernur, bæklinga, blöð, plast og málma. „Þau hjá Terra hafa sinnt okkur mjög vel í gegnum tíðina. Sjálf höfum við farið með gler, spilliefni og raftæki o.fl. sem ekki er þörf fyrir í Sorpu, ýmsir hafa notið góðs af dósum og flöskum og gömul bókhaldsgögn farið í viðeigandi ferli. Þá var það mikið gleðiefni árið 2010 þegar Terra fór að bjóða upp á tunnu fyrir lífrænan úrgang. Þannig gátum við dregið talsvert úr hlutfalli úrgangs sem fer til urðunar og lagt okkar af mörkum við að búa til hina fínustu gróðurmold.“

Í dag er hlutfall endurvinnanlegs úrgangs á skrifstofunni hjá þeim 87 %.


Aðspurð hvort þau setji sér markmið segir Berglind að mikilvægt sé að vera alltaf á vaktinni og minna hvert annað á.

Í ár ætlum við að setja okkur það markmið að ná endurvinnsluhlutfallinu upp í 90%. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni og minna hvert annað á að vera dugleg að flokka og skola. Það liggja alltaf einhver tækifæri í að gera betur og þá ekki síst að draga úr úrgangsmyndun sem fylgir öllu því sem kemur inn á skrifstofuna, umbúðir, pappír, ílát undir hreinlætisvörur o.s.frv.

Stór hluti starfsmannahóps Ferðaþjónustu bænda hf. hefur verið með í þessari vegferð frá upphafi, og þá t.d. áttu sér stað mjög nákvæmar mælingar á vatnsnotkun sem allir starfsmenn tóku þátt í. „Það má segja að umhverfismál og þar með talin endurvinnslan sé mörgum eðlislæg, en öll erum við mannleg og stundum kemur jú fyrir að einhver gleymir sér. Það hefur líka verið ánægjulegt hvað hópurinn hefur haldið tryggð við lífrænt að heiman en eftir að hafa tileinkað sér flokkun á lífrænum úrgangi, þá er erfitt að snúa tilbaka. Heimavinna í Covid hefur heldur ekki látið stoppa starfsmenn í að koma við á skrifstofunni til að skila af sér lífrænum úrgangi.“

Ferðaskrifstofan er gæða- og umhverfisvottuð af  Vakanum en það er Vottunarstofan Tún sem sér um úttektina og þurfum við að skila inn grænu bókhaldi ár hvert. Með þessarri skráningu felst ekki síður vöktun á því hvernig málin standa og ef einhver frávik eru þá er hægt að bregðast við og setja sér ný markmið. Það hjálpar þeim að fylgjast með sínum árangri á vegferð sem þessari.

Ferðaþjónusta bænda hf. var fyrsti viðskiptavinur Terra sem bauð starfsfólki sínu að koma með lífrænan úrgang frá heimilum á vinnustaðinn. „Þegar við vorum byrjuð að flokka lífræna úrganginn á skrifstofunni, þá höfðu sumir starfsmenn það á orði að það væri skrítið að fara svo heim og henda lífrænum úrgangi í venjulegt heimilisrusl. Það var því tekið fagnandi af starfsmönnum þegar sérmerkt tunna fyrir Lífrænt að heiman var sett upp í okt. 2013. Þeir starfsmenn sem vildu koma með lífræna sorpið sitt að heiman fengu grænt ílát og rúllu af 8 lítra maíspokum og er ennþá sami háttur hafður á í dag.“ Á myndinni hér að neðan má einmitt sjá hana Bryndísi losa sig við sinn lífræna heimilisúrgang.

Það er því ekki óvanalegt að starfsfólkið keyri á milli vinnu og heimilis með lífrænan poka og stundum hefur pokinn fengið far með strætó. Þá hafa komið upp skemmtileg augnablik sem við fengum þau til að deila með okkur:

  • Þegar maður er að laumast í skjóli nætur (að kvöldi eða um helgar) til að henda í lífrænu tunnuna. Einhvern tímann stoppaði ræstitæknirinn eiginmann starfsmanns og spurði hvað hann væri eiginlega að vilja í ruslatunnurnar! Eiginmaðurinn svaraði: Konan mín er að vinna hér og ég er bara að henda lífræna ruslinu.

  • Það er ekkert óeðlilegt að fara með lífrænan úrgang út í bíl. Starfsmaður upplýsti um frávik á skráningu á lífrænu sorp fyrir skrifstofuna. Í lok vinnudags hafði hann tekið með sér lífrænan úrgang úr eldhúsinu, en í stað þess að setja hann í tunnuna við húsvegginn, þá setti hann pokann í framsætið á bílnum og hélt svo heim á leið. Viðkomandi fattaði það svo á miðri leið heim að hann væri með óþarfa poka í bílnum.

  • Skemmtilegasta sagan sem ég hef af lífræna sorpinu okkar er sú þegar ég kom inn á skrifstofuna með lífræna úrganginn minn að heiman og neitaði að losa mig við það í tunnuna. Ástæðan var að ég hafði séð eitthvað lifandi í tunnunni, og því lokað henni strax. Ég vissi ekki hvort þetta var köttur, mús, rotta eða……það var bara eitthvað lifandi. Það varð uppi fótur og fit á skrifstofunni og fólki var mjög brugðið. Einn starfsmaður tók að sér að fara út, mjög vel búin í úlpu með húfu og vettlinga til að athuga/redda málinu. Starfsmaðurinn var kominn hálfa leiðina út þegar það var kallað á eftir honum 1.apríl

Að lokum fengum við Berglindi til að deila með okkur nokkrum ráðum fyrir önnur fyrirtæki sem vilja bæta árangur sinn þegar kemur að flokkun endurvinnsluefna og úrgangs og ekki stóð á svörum:

  • Við berum öll ábyrgð - það er engin afsökun að gera ekki neitt.
  • Það leynast örugglega einstaklingar í hópnum sem hafa áhuga á þessum málum og því tilvalið að virkja þann hóp, búið til teymi sem hefur það verkefni að setja fram stefnu og framkvæmdaáætlun í þessum efnum. Skilgreinið verkefni, ábyrgðaraðila og lok einstakra verkefna. Mikilvægt að það sé umhverfisfulltrúi til staðar sem ber ábyrgð á málaflokknum.
  • Tilvalið að velja Heimsmarkmið nr. 12 – Ábyrg neysla og framleiðsla til að vinna með.
  • Ef þið vitið ekki hvernig ákveðið rusl á að flokkast, þá má alltaf finna leiðbeiningar á vefnum eða hafa samband við starfsmann hjá Terra. Það hefur reynst okkur vel.
  • Hvetja til vitundarvakningu innan fyrirtækisins, halda viðburð eða þemaviku/mánuð sem er sérstaklega tileinkaður umhverfismálum/sjálfbærri þróun innan fyrirtækisins.
  • Engar ruslafötur við skrifborðin, en þess í stað hafa flokkunartunnur nálægt og fá þannig starfsmenn til að vera meðvitaðari um hvert úrgangurinn á að fara í stað þess að henda bara beint í ruslafötuna undir skrifborðinu. Líka ágætis tækifæri til að rétta aðeins úr sér.
  • Velja fjölnota glös og bolla í stað einnota, sem síðan er þvegið með umhverfisvottuðu uppþvottaefni.
  • Haldið grænt bókhald og setjið ykkur sjálfbærnimarkmið. Fylgist með frammistöðunni og fagnið litlum sem stórum sigrum!

Við þökkum Berglindi og Ferðaþjónustu bænda hf. kærlega fyrir að deila sögunni sinni og notum tækifærið og óskum þeim til hamingju með frábæran árangur.

Við erum stolt af samstarfinu og við hlökkum til að halda því áfram.