- Þjónusta
- Vörur
- Vinnustaðurinn
- Um okkur
- Vottanir
Vel gert Nói Siríus!
Við fengum fregnir af því að Nói Siríus væri í þeirri vegferð að merkja allar umbúðir sínar með merkingum Fenúr sem ætlað er að auðvelda neytendum að flokka umbúðir rétt.
Við vorum svo uppnumin yfir þessum fréttum að við ákváðum að heyra í þeim og fræðast meira um þessa vegferð þeirra.
Fyrst langaði okkur að vita hvað kom til þess að þau ákváðu að fara í þessa vegferð og kom þá í ljós að þau hafa horft til þess í nokkurn tíma að bæta endurvinnslumerkingarnar þar sem þeim finnst rétt flokkun mikilvæg og að umbúðir frá þeim rati aftur inn í hringrásarhagkerfið. Þau sáu Fenúr merkingarnar fyrst birtast á öðrum Norrænum vörum og fannst þeim þær algjörlega fanga það sem þau voru að leita að, einfaldar og skýrar merkingar sem fólk á öllum aldri getur skilið. Þegar það lá fyrir að nýju flokkunartunnurnar yrðu merktar með þeim merkingum þá var það algjörlega borðleggjandi hjá þeim að bæta þeim við.
Við spurðum þau hvort þau væru með markvissa stefnu varðandi endurbætur á umbúðum til að auðvelda endurvinnslu þeirra. Það lá ekki á jákvæðu svari frá þeim þar og sögðust þau hafa verið að taka slík skref og væru hvergi nærri hætt. Hingað til hafi þau gert mestar úrbætur þegar kemur að páskaeggjaframleiðslunni en þau hafa fjarlægt nánast allt plast innan úr eggjunum, valið skraut sem hægt var að neyta í stað plasts og gert verulegar úrbætur á kössum utan um eggin. Bara þessi eini vöruflokkur hefur sparað helling af umbúðum. Nokkur ár eru síðan þau færðu allar súkkulaðiplöturnar úr plasti í pappa sem skilaði mjög miklu. Þar sem þau eru matvælaframleiðendur standa þau frammi fyrir flóknu samspili umbúða og vörugæða því rangar umbúðir geta þýtt meiri matarsóun, sem einnig er mikið vandamál. Þau eru því að huga vel að öllum breytingum er varðar vörunar þeirra.
Fyrstu vörunar sem munu vera merktar með Fenúr merkingum eru að koma úr framleiðslu hjá þeim þessa stundina og má búast við að sjá þær í hillum á næstu vikum.
Þar sem þau eru með afar mörg vörunúmer mun ferlið taka þau 1-2 ár að innleiða allar merkingarnar að fullu, sem er mjög eðlilegur tími því að þau vilja ekki henda núverandi umbúðum sem þau eiga á lager bara til að setja merkingarnar á, slíkt væri sóun.
Þar sem við viljum hvetja öll fyrirtæki á Íslandi til að nýta sér þessar merkingar Fenúr þá vorum við forvitin að vita hvort þetta væri kostnaðarsamt verkefni. Þau bentu réttilega á að það væri frítt fyrir fyrirtæki að nýta sér merkingar Fenúr en að það væri hönnunarkostnaður sem félli til við að setja þær inn á allar umbúðirnar. Einnig þarf gott teymi af fólki til að lesa yfir og tryggja að allar nýjar umbúðir beri Fenúr merkingar.
Vonandi munu þessar upplýsingar af vegferð Nóa Siríus vera hvatning fyrir fleiri fyrirtæki á Íslandi til að fara í vegferð sem þessa.
Á vef Fenúr finni þið allar helstu upplýsingar um þessar merkingar og getið nálgast hönnunarstaðla og merki fyrir hvern og einn endurvinnsluflokk.
Móttökustöðin Berghellu 1 er opin
mán - fös: 8:00-17:00
Efnaeyðing er opin alla virka daga: 8:00-16:00
Vörulager er opin alla virka daga: 8:00-16:00
Móttökustöðin Hlíðarvöllum Akureyri er opin
mán-fös: 8:00-17:00
Þjónustuver er opið alla virka daga: 9:00-15:00
Netspjallið er opið alla virka daga: 9:00-16:00